NÝR FRAMKVÆMDASTJÓRI HEFUR TEKIÐ TIL STARFA

Hún heitir Kolbrún Stefánsdóttir, fædd og uppalin á Raufarhöfn. Þar gegndi hún margvíslegum störfum og sat í sveitarstjórninni í áratug. Kolbrún var um langt árabil útibússtjóri hjá Landsbanka Íslands, bæði í útibúum á landsbyggðinni og í Reykjavík. Kolbrún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur einnig verið virk í félagsmálum. Hún var framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, um fimm ára skeið, en nú síðast fjármálastjóri SH hönnunar. Kolbrún er menntuð í viðskipta- og rekstrarfræði, auk mannauðsstjórnunar frá EHÍ.

Starfið hjá Sjálfsbjörg lsf kveikti mikinn áhuga hjá henni á málefnum fatlaðs fólks og hafði hún áhuga á að starfa meira á því sviði. Kolbrún hafði heyrt af MS-félaginu og þekkir einstaklinga með MS. Hún ákvað því að sækja um starf framkvæmdastjóra félagsins þegar það var auglýst. Félagið horfði til mikillar reynslu Kolbrúnar á hinum ýmsu sviðum við ráðningu. Félagið býður Kolbrúnu velkoma til starfa.

BG