ÓLAFUR RAGNAR: MS FÉLAGIÐ RUDDI BRAUTINA

 

 

“Það þarf að standa vörð um þá baráttu sem þið heyið og koma á samstarfi og samstöðu með þjóðinni um að viðhalda velferðinni,” sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í ávarpi á fyrsta alþjóðadegi MS, sem haldið var upp á í glaðasólskini s.l. miðvikudag þ. 27. maí  að viðstöddu miklu fjölmenni. Forsetinn sagði MS-félagið hafa með starfi sínu rutt braut fyrir önnur hagsmunasamtök sjúklinga. “Það er mikilvægt, að samfélagið sé uppfrætt um daglegt líf sjúklinganna”, sagði Ólafur Ragnar. Vilhjálmur Þorláksson afhenti MS-félaginu samanlagðan 10 krónu hlut í sölu á flatkökum Ömmubaksturs og Gæðabaksturs í eina viku, röskar 400 þ.kr. Bubbi og Geir Ólafsson skemmtu gestum, sem voru a.m.k. 150 manns. 

 

 

Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS-félagsins setti alþjóða MS daginn og bauð forsetann og alla gestina velkomna. Hún minnti á  meginmarkmið dagsins, sem væri að efla vitund almennings um MS-sjúkdóminn og Tysabrí-baráttuna, helzta baráttumál félagsins þessi misserin. Hún greindi frá því, að forysta félagsins hefði átt fund með Ögmundi Jónassyni, heilbrigðisráðherra, og hún ætti von á góðu sambandi við ráðherrann vegna málefna félagsins.

 

 

 

 

 

Ólafur Ragnar flytur ávarp í sólinni á MS-daginnForsetinn sagði í upphafi ávarps síns, að það væri ánægjulegt að vera kominn í hóp og á vettvang MS-félagsins. Veðurblíðan er táknræn, sagði Ólafur Ragnar. Það væri skjól og sól og birtan væri í samræmi við þá viðleitni MS-félagsins, sem vildi með alþjóða MS deginum varpa ljósi á MS-sjúkdóminn. MS-félagið hefur átt ríkan þátt í því að ala íslenzku þjóðina upp með því að reyna að varpa ljósi á sjúkdóminn. Fyrir nokkrum áratugum ríkti lítill skilningur í þessum efnum, en það hefur breytzt og ábyrgðarkennd almennings væri nú mun meiri.

 

 

 

Forsetinn sagði jafnframt, að ástæða væri að minnast og þakka þeim, sem hafi áorkað jafnmiklu og raun ber vitni í þessari baráttu í áranna rás. Núna væri meiri skilningur og vitund um sjúkdóminn í samfélaginu og ríkari skilningur hjá fjölskyldum og aðstandendum.

Ólafur Ragnar sagði, að MS-félagið ætti hrós skilið, því félagið hefði verið öðrum félögum af sama toga fyrirmynd, verið öðrum félögum fordæmi og kennt öðrum stuðningsfélögum til verka. Það væri mikilvægt, að samfélagið væri uppfrætt um daglegt líf sjúklinganna.

 

 

Ólafur Ragnar lagði áherzlu á, að fólk stæði saman og héldi vörð um þá baráttu, sem þið heyið, samstarf með þjóðinni væri mikilvægt og jafnframt að efla samstöðu um viðhald velferðar.

Vilhjálmur afhendir Sigurbjörgu hlut MS-félags í metsölu á flatkökum

 

 

 

Að loknu ávarpi forsetans tók Sigurbjörg, formaður félagsins, við myndarlegum fjárstyrk frá Vilhjálmi Þorlákssyni, forsprakka Ömmubaksturs og Gæðabaksturs, alls rösklega 400 þ.kr., sem var sá hluti sölu á flatkökum vikuna 21.-27. maí, sem Vilhjálmur hét að MS-félagið fengi. Hann ákvað að gefa MS-félaginu 10 kr. af hverjum seldum flatkökupakka í eina viku og niðurstaðan var sú, að sett var sölumet. Því er m.a. að þakka sjálfboðaliðum MS-félagsins, sem fóru í stórverzlanir og vöktu athygli á flatkökuáheiti fyrirtækja Vilhjálms og hvöttu fólk til að kaupa flatkökur og jafnvel aukalega fyrir frystikistuna!

 

 

Þegar Vilhjálmur afhenti formanninum söluhlut MS-félagsins tók hann fram, að hann hefði talið öruggast að afhenda upphæðina beint í stað þess að leggja peningana inn í banka. “hann gæti verið farinn á hausinn á morgun,” sagði Vilhjálmur og hló.

Bubbi syngur fyrir fullu húsi

 

 

 

 

Þá tóku Bubbi og Geir Ólafsson við og sungu þeir nokkur lög hvor í sínu lagi við mjög góðar undirtektir. Þess má geta, að Gréta, móðir Bubba, var fyrsti formaður MS-félagsins úr hópi sjúklinga, og sagði Bubbi á samkomunni, að hann hefði ávallt mjög miklar og sérstakar taugar til MS-félagsins enda hefur hann ekki legið á liði sínu, þegar leitað hefur verið til hans.

 

Geir Ólafs í góðum gír

 

 

 

 

 

 

Fyrsti alþjóðadagur MS á Íslandi tókst með miklum ágætum og verður haldið upp á hann árlega héðan í frá.                                                        hh