ÓNÆMISKERFIÐ ENDURRÆST!

Ný rannsókn sýnir að stórir skammtar af krabbameinslyfi gætu hugsanlega dregið úr sjúkdómsvirkni og fötlun fólks sem er með MS af versta tæi. Rannsóknin beinist að því að nota stóra skammta af ónæmisbælandi krabbameinslyfi í einni atrennu.

Rannsóknin var gerð hjá Johns Hopkins Háskólanum í Baltimore var lítil. Vegna jákvæðrar niðurstöðu hefur verið ákveðið að hefja stóra rannsókn á næsta ári.

Rannsóknin náði til mjög veikra MS sjúklinga. Tilraunin fólst í því að gefa þeim ónæmisbælandi lyf. Þessi litla rannsókn leiddi í ljós, að stórir skammtar af cyclophosphamide, samheitalyfi við krabbameini, sem hefur verið notað síðastliðna hálfa öld, dró úr fötlun MS sjúklinga, jók getu líkamans til hreyfinga og fækkaði fjölda bólgusvæða á heila, sem tengjast ástandi MS-sjúklings.

Fylgzt var reglulega með níu sjúklingum í tvö ár eftir að þeir höfðu fengið lyfið. “Sjúkdómurinn krældi ekki ekki á sér hjá fimm sjúklinganna, en hinir fjórir sýndu stórkostlegar framfarir,” segir dr. Douglas Kerr, mjög virtur MS-sérfræðingur hjá Johns Hopkins Háskólanum í Baltimore, sem stjórnaði ranForystumaður rannsóknarteymisinsnsóknarteyminu.

Kerr sagði, að sjúklingarnir hefðu endurheimt getu til líkamlegra athafna og hreyfinga, sem sjúkdómurinn hefði svipt þá.

Þau lyf sem MS sjúklingar fá á vorum dögum miðast í bezta falli við að draga úr rýrnun eða hnignun MS sjúklinga eða halda sjúkdómnum í horfinu og að jafnaði þarf að gefa MS sjúklingum lyfin aftur og aftur með reglulegu millibili. Þessi lyf eru gefin í æð. Þetta á t.d. við um lyfið tysabri, sem fram til þessa hefur reynzt bezt allra MS lyfja.

Því má skjóta hér inn, að hérlendis eru nokkur dæmi þess, að krabbameinslyf hafi haft þvílíkar “jákvæðar aukaverkanir”, að MS sjúklingum, sem hafa tekið lyfið, hefur batnað verulega. Dæmi er um íslenzkan MS sjúkling, sem fór í krabbameinsmeðferð og fékk mjög sterk lyf, þurfti ekki að nota hjólastólinn sinn lengur eftir meðferðina – og fór stóllinn væntanlega í geymsluna!

 

Það eru tvö  ónæmisbindandi krabbameinslyf, sem hingað til hafa verið notuð á MS sjúklinga. Annars vegar cyclophosphamide (sem var notað í Johns Hopkins – rannsókninni) og mitoxantrone (Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna samþykkti lyfið árið 2000 en þar í landi gengur það undir nafninu Novantrone).

Sverrir Bergmann, taugasérfræðingur, sagði við MS-vefinn, að bæði þessi lyf hefðu verið notuð á Íslandi. Sjálfur hefði hann í ákveðnum tilvikum notað mitox (mitoxantrone). Árangurinn hefði verið upp og ofan. Dr. Kerr segir um rannsóknarlyfið cyclophosphamide, að það hafi verið notað við meðferð MS sjúklinga í Bandaríkjunum með mjög misjöfnum árangri.

Haft er eftir Kerr, að önnur hver meðferð, sem verið sé að nota í heiminum og, að því er hann viti bezt, sé annað hvert lyf, sem er á teikniborði lyfjafyrirtækjanna, hannað með það í huga að halda sjúkdómnum í skefjum á meðan sjúklingurinn tekur lyfið.”

“Þetta er meðferð, þar sem þú gefur lyfið einu sinni í von um að endurstilla ónæmiskerfið,” segir Kerr. Tilgangurinn er að setja ónæmiskerfið í eins konar upphafsstöðu (“núllstaöðu”) þannig, að það ráðist ekki áfram á heilann og mænuna. “Þannig held ég, að þessi rannsókn geri hana verulega öðru vísi og verulega spennandi,” bætir Kerr við.

“Sjúklingunum níu í rannsókninni voru gefnir stórir skammtar af cyclophosphamide í æð fjóra daga í röð og þannig var gerð tilraun til að “endurræsa” ónæmiskerfið – og síðan fengu þeir ekki meira af lyfinu,” sagði Kerr við Reuters-fréttaþjónustuna þ. 9. júní síðastliðinn, en rannsóknarniðurstöðurnar voru birtar í nýjasta hefti Journal Archives of Neurology, virtu bandarísku taugafræðitímariti.

DREGIÐ ÚR FÖTLUN

Sjúklingarnir, sem tóku þátt  í rannsókninni voru allir með algengasta birtingarform MS, þ.e. þeir fengu köst sem stóðu í ákveðinn tíma  og síðan leið tímabil engra einkenna.

Dr. Douglas Kerr segir, að niðurstöður rannsóknarinnar gætu boðað mikilvægar og þýðingarmiklar framfarir við meðferð á MS. Hann sagði, að rannsóknarteymið hjá Johns Hopkins háskóla stefni að því að hefja stóra og víðtæka klíníska rannsókn og tilraunir á þessu nýja meðferðarúrræði  á næsta ári.

Í nýju “MS-krabbameinsrannsókninni” var sjúklingunum níu lýst sem “hinum verstu af þeim verstu” í þeim skilningi að engin meðferð hafði dugað á átta þeirra og sá níundi hafði aldrei fyrr fengið meðferð.

Eftir tvö ár kom í ljós, að fötlun þeirra hafði minnkað að meðaltali um 40%. Rannsóknir sýndu jafnframt fram á 87% framför í prófum rannsakenda, þar sem mæld var líkamleg og andleg starfsemi. Þá sýndu myndir af heilum sjúklinganna lækkun meðaltals á bólgum á heila úr 6.5 niður í 1.2 skemmdir. – h