OPINN FUNDUR MEÐ SVERRI BERGMANN

Sverrir Bergmann, taugalæknir og sérstakur taugasérfræðingur MS-félagsins, situr fyrir svörum á aðstandendafundi, sem haldinn verður á morgun, laugardaginn 28. febrúar kl. 13:30 í húsakynnum MS-félagsins sð Sléttuvegi 5. Vegna efnahagshrunsins hérlendis eru tímamót í heilbrigðisþjónustu MS-sjúklinga og má vænta, að Sverrir geri grein fyrir stöðu mála. MS-sjúklingar og aðstandendur eru hvattir til að fjölmenna.

Á aðstandendafundinum verður starfsemi MS-félagsins og endurhæfingarmiðstöðvarinnar kynnt og sitja forsvarsmenn félagsins og endurhæfingarinnar fyrir svörum.

Fyrrverandi heilbrigðisráðherra var búinn að tilkynna niðurskurðaraðgerðir í heilbrigðiskerfinu í samræmi við stefnu fyrri ríkisstjórnar í fjárlögum. Um er að tefla um 6 milljarða króna. Nýr heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, þarf að spara jafnmikia fjármuni. Hins vegar hefur hann kynnt aðrar áherzlur en forveri hans og þannig t.d. endurskoðað fyrri ákvörðun um að breyta St. Jósefsspítala og leggja starfsemi spítalans niður í núverandi mynd. MS-félagið mótmælti fyrri ákvörðun og fagnar félagið breyttri afstöðu.

Núna leggur MS-félagið megináherzlu á að fá upplýsingar um hvort ekki verði örugglega tryggt framhald á tysabri-lyfjagjöf, eins og stefnan í þeim efnum var  mótuð á s.l. ári.

Sverrir Bergmann hefur manna mest fylgzt með árangrinum af tysabri-lyfjagjöf hérlendis og við lauslega athugun er niðurstaðan sú að árangur af lyfinu er ótrúlega góður. Þessi árangur birtist m.a. í því að lífsgæði MS-sjúklinga sem fá tysabri hafa stórbatnað og jafnframt eru mörg dæmi um að sjúklingum hafi farið svo verulega fram, að þeir hafi lagt hækjuna á hilluna, þótt lyfið sé einungis viðnámslyf.

Um þessi mál getur Sverrir frætt fundarmenn á morgun kl. 13:30 í MS-húsinu.

Aðstandendur og MS-sjúklingar eru hvattir til að mæta.