PLEGRIDY: NÝTT MS-LYF BÆTIST VIÐ LYFJAFLÓRUNA

Nýtt sprautulyf, Plegridy, hefur bæst við flóru MS-lyfja sem gefin eru á Íslandi og er ætlað þeim sem hafa MS-sjúkdóminn í köstum. Það hefur svipaða virkni og interferonlyfin sem fyrir eru og sem fækka köstum um 30%. Kosturinn umfram þau lyf er að ekki þarf að sprauta sig jafn oft. Plegridy er sprautað undir húð með lyfjapenna á 14 daga fresti. Aukaverkanir geta verið viðbrögð frá húð og flensueinkenni.

 

Plegridy kemur í einnota fylltum lyfjapennum í þremur mismunandi styrkleikum; 63, 94 eða 125 µg. Meðferðin byrjar með styrkleika 63 µg í lyfjapennanum, næsta lyfjaskot, tveimur vikum síðar, inniheldur styrkleikann 94 µg og tveimur vikum þar á eftir inniheldur lyfjapenninn 125 µg sem er hámarksskammtur og er notaður á 14 daga fresti eftir það.

Sprautað er undir húð í maga, í upphandlegg eða í læri.

 

 

 

peginterferon beta-1a

Virka efni Plegridy er peginterferon beta-1a. Það er enn ekki að fullu ljóst hvernig peginterferon beta-1a virkar á MS-sjúkdóminn en það virðist þó dempa ónæmiskerfið og draga úr eða koma í veg fyrir skaða í miðtaugakerfinu. Í MS ræðst ónæmiskerfið á mýelín, efnið sem myndar slíður utan um taugaþræði miðaugakerfisins og ræður hraða og virkni taugaboða.

Ástæðan fyrir því að ekki þarf að sprauta sig jafn oft með Plegridy eins og með eldri interferon-lyfjum er að búið er að binda interferonið í Plegridy með ákveðnu kemísku efni, polyethylenglycol, sem gerir að virka efni Plegridy leysist upp hægar í líkamanum en betaferonlyfin sem fyrir eru.

 

Aukaverkanir

Algengustu aukaverkanir Plegridy (koma fyrir hjá allt að einum af hverjum 10 einstaklingum) er höfuðverkur, vöðvaverkir, liðverkir, inflúensulík einkenni, hiti, kuldahrollur, slappleiki, roði í húð og verkir eða kláði á stungustað.

Alvarlegri aukaverkanir geta verið lifrabólga og alvarlegt þunglyndi.

Lista yfir aukaverkanir m.m. má fá í lyfjakorti (öryggisupplýsingar um lyf) sem afhent er sjúklingi við fyrstu lyfjagjöf eða á vefsíðu Plegridy, sjá hér neðar.

 

Frábendingar

Ófrískar konur eða konur með börn á brjósti mega ekki vera á lyfinu. Heldur ekki fólk sem á við alvarlegt þunglyndi að stríða.

 

Niðurstöður rannsóknar á Plegridy

Í rannsókn á Plegridy sem tók fjögur ár voru 1.516 þátttakendur. Fyrsta árið var þátttakendum skipt í þrjá hópa; einn hópurinn fékk Plegridy á 2ja vikna fresti, annar hópurinn á 4ra vikna fresti og sá þriðji fékk lyfleysu. Á öðru ári var hópnum skipt í tvennt; annar hópurinn fékk Plegridy á 2ja vikna fresti, hinn á 4ra vikna fresti. Næstu tvö árin var fylgst með þátttakendum til að meta áhættu til lengri tíma og virkni lyfsins.

Mælikvarði á árangur var m.a. fjöldi kasta yfir eitt ár og þróun fötlunar. Niðurstaðan var að besti árangur fékkst með lyfjagjöf á 2ja vikna fresti, bæði hvað varðar fækkun kasta og þróun fötlunar.

 

 

Öryggisupplýsingar hér (á ensku) frá 27.01.2016

Vefsíða lyfjafyrirtækisins BiogenIdec vegna Plegridy hér (á ensku)

 

Heimild hér

 

Bergþóra Bergsdóttir