RANNSÓKN UM ÁHRIF REYKINGA

 

Nú nýlega kynntu vísindamenn við Karolínska sjúkrahúsið í Svíþjóð niðurstöður rannsókna sinna sem benda til þess að reykingar hafi einnig neikvæð áhrif á sjúkdómsframvindu MS en þekkt eru tengsl reykinga við orsök MS eða áhættuna við að fá sjúkdóminn.

 

Rannsóknin sýnir fram á að ef reykjandi sjúklingar með MS halda áfram að reykja eftir greiningu þá flýtir það fyrir versnun sjúkdómsins samanborið við þá sjúklinga sem hætta að reykja. Hvert ár skiptir máli því áhættan eykst um 4,7% með hverju árinu sem líður.

 

728 MS-sjúklingar tóku þátt í rannsókninni en þeir reyktu allir við greiningu sjúkdómsins og voru, þegar rannsóknin fór fram, með MS í köstum eða með síðkomna versnun MS.

 

Um 85% allra sem greinast með MS fá greininguna MS í köstum en margir þeirra þróa síðar með sér síðkomna versnun.

 

Reykingamenn geta seinkað því versnunarferli um 8 ár ef þeir hætta að reykja eftir greiningu því rannsóknin sýndi fram á að meðalaldur þeirra er 56 ára við þessa breytingu á sjúkdómsferli á móti 48 ára meðalaldri þeirra sem halda áfam að reykja.

 

Vísindamennirnir hvetja því fólk til að hætta að reykja og segja það aldrei of seint.

 

Sjá útdrátt úr grein vísindamannanna í JAMA Neurology

hér

Sjá fréttatilkynningu Karolínska sjúkrahússins hér

 

 

 

Bergþóra Bergsdóttir