Rannsókn um svefnraskanir MS-greindra í Læknablaðinu

Fyrir tæpu ári síðan tóku 234 einstaklingar með MS þátt í rannsókn Aðalbjargar Albertsdóttur hjúkrunarfræðings, vegna lokaverkefnis hennar til meistaragráðu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri, að kanna algengi svefntruflana hjá fólki með MS. Þátttakan var einstaklega góð sem gerir niðurstöðurnar mjög áhugaverðar.

Aðalbjörg hefur nú lokið meistaraprófinu en auk þess birtist í 9. tbl. Læknablaðsins 2019, sem kom út á dögunum, grein eftir Aðalbjörgu og meðhöfunda hennar þar sem gerð er grein fyrir meistararannsókninni. Birtingin er mikil viðurkenning á efnistökum og niðurstöðum verkefnisins.

Hlusta má á Aðalbjörgu og leiðbeinanda hennar í viðtali í hlaðvarpi Læknablaðsins hér

Helstu niðurstöður

Algengi skertra svefngæða var 68%. Fjórir algengustu þættirnir sem trufluðu svefn voru: salernisferðir (39%), verkir (37%), einkenni svefnleysis (30%) og einkenni kæfisvefns (24%).

Í ljós kom að 79% þátttakenda höfðu minnst eina svefntruflun og að meðaltali höfðu þátttakendur tæpar tvær svefntruflanir hver.

Einkenni svefnleysis höfðu sterk tengsl við lítil svefngæði.

Niðurstöður Aðalbjargar og meðhöfunda hennar styðja þannig við niðurstöður erlendra rannsókna um að svefntruflanir hjá fólki með MS séu algengar, stórlega vangreindar og hafi áhrif á heilsu.

Nú þarf að auka vitund

Aðalbjörg telur að bregðast þurfi við hárri tíðni skertra svefngæða og svefntruflana hjá MS-greindum og til að auka svefngæði ætti sérstaklega að horfa til greiningar og meðferðar á svefnleysi.

Í því augnamiði hefur Aðalbjörg haldið og mun halda fyrirlestra fyrir ýmsa hópa innan heilbrigðisstéttarinnar auk þess sem gera má ráð fyrir að grein hennar í Læknablaðinu veki verðskuldaða athygli. Aðalbjörg mun einnig halda fyrirlestur fyrir MS-greinda og aðra áhugasama. Nánar auglýst síðar.

Þjáist þú af svefntruflunum?

Góður og endurnærandi svefn er MS-greindum, sem öðrum, mjög mikilvægur. Eigir þú við svefnvanda að stríða skaltu endilega gera eitthvað í málunum því margt er hægt að gera:

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

Frekari fróðleikur