SETTU HEIMSMET Í BALLSKÁK Í ÞÁGU MS

Félagarnir Ingi Þór Hafdísarson og Sigurður Heiðar Höskuldsson stóðu við heit sitt og settu heimsmet í ballskák á hádegi í gær með því að spila sleitulaust í 72 klukkustundir. Eldra metið var 53 klst. og 25 mínútur. Síðdegis á miðvikudag slógu þeir út gamla metið, en þrátt fyrir þreytu ákváðu þeir að slá ekki bara gamla metið, heldur gera það með bravúr. Áheitum var safnað handa MS-félaginu í nafni Brynjars Valdimarssonar, vinar þeirra, sem greindist nýverið með MS.

Heimsmetið var sett í Snóker- og poolstofunni í Lágmúla og verður það skráð í Guinness-heimsmetabókina. Farið var að settum reglum Guinness og þriggja sólarhringa ballskákin t.d. öll tekin upp á myndband.

Ingi Þór sagði við MS-vefinn eftir að hafa spilað í 53 klst. og 47 mínútur, 22 mínútum umfram gamla metið, að líkamlega þreytan væri mest í fótunum og baki, en það sem hefði reynzt erfiðast við þetta væri að spila á næturnar. Sigurður Heiðar sagði aðspurður, að það væri svolítið merkilegt að þrátt fyrir púlið hefði hann verið að spila einna bezt eftir u.þ.b. 35-36 klukkutíma!

“Þeir stóðu sig með prýði strákarnir og kláruðu sína 72 tíma,” sagði Berglind Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri MS-félagsins í hádeginu í gær, en hún og Ingdís Líndal, skrifstofustjóri MS-félagsins, fylgdust með lokasprettinum. “Sigurður Heiðar tók síðan einn aukaleik við ungan pilt, sem greiddi sérstaklega fyrir að fá að spila við annan heimsmeistarann,” sagði Berglind. Berglind var einnig viðstödd þegar piltarnir slógu út gamla metið í fyrradag, en tilgangur þessa ballskákarviðburðar var að vekja athygli á málefnum MS-sjúklinga og safna áheitum í þágu MS-félagsins.

Ingdís Líndal, Sigurður Heiðar, Ingi Þór og Berglind ÓlafsdóttirIngi Þór og Sigurður Heiðar voru að sjálfsögðu glaðir í bragði eftir að hafa staðið við sett markmið og leikið ballskák stöðugt í þrjá sólarhringa í nafni vinar síns, Brynjars Valdimarssonar, sem er nýgreindur með MS. Báðir voru þeir farnir að sjá fyrir sér rúmin sín, en eins og verða vill þurftu þeir fyrst að sinna fjölmiðlum, m.a. að spjalla við Stöð 2. Fréttir um heimsmetið hafa birzt í flestum fjölmiðlum.

MS-félagið óskar þeim Inga Þór og Sigurði Heiðari til hamingju með heimsmetið og “sendir þeim hugheilar þakkir fyrir þetta áheitaátak í þágu MS-félagsins og vinarhót, sem þeir sýndu Brynjari, vini sínum,” eins og Berglind Ólafsdóttir sagði í samtali við MS-vefinn.

Við minnum á fésbókarsíðu þeirra félaga:

Heimsmetstilraun Sigurðar Heiðars og Inga Þórs

Ljósmyndirnar með þessari frétt tók Vilhjálmur Siggeirsson og eru birtar með góðfúslegu leyfi hans.

Áheitasöfnun – enn opið fyrir framlög:
Með heimsmetstilrauninni vilja þeir pool-félagar gefa fólki kost á að heita á sig og renna öll áheit á kappana óskipt til MS-félags Íslands. Áheitasöfnunin fer fram í síma 568 8620 (milli 10 og 15 virka daga) og með tölvupósti á msfelag@msfelag.is .

Gefa þarf upp: Nafn, heimilisfang, kennitölu og upphæð og greiðslumáta. Hægt er að greiða með kreditkorti (gefa upp kortanúmer og gildistíma) eða fá sendan greiðsluseðill.

Einnig er hægt er að millifæra á reikning MS-félagsins nr. 0115-26-102713 – kennitala 520279-0169. Kvittun óskast send á msfelag@msfelag.is.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast hjá MS-félaginu í síma 568 8620.

 

hh