SJÁLFSTÆTT LÍF – FREKJA, HEPPNI EÐA SJÁLFSÖGÐ MANNRÉTTINDI

23. mars sl. var boðið upp á fræðslufund í MS-heimilinu þar sem fyrirlesari var Freyja Haraldsdóttir. Fyrirlesturinn var í senn einstaklega fróðlegur og sérlega skemmtilegur. Erindi Freyju fjallaði um NPA – Notendastýrða Persónulega Aðstoð. Yfirskriftin var SJÁLFSTÆTT LÍF – Frekja, heppni eða sjálfsögð mannréttindi.

NPA byggir á:
• Að fatlað fólk hafi fulla stjórn á allri aðstoð sem það telur sig þurfa, m.a. með því að ákveða hver, hvar, hvernig og hvenær aðstoðin er veitt.
• Að fatlað fólk njóti jafnréttis og taki þátt í samfélaginu.

Freyja hefur lengi barist fyrir réttindum sínum og annarra sem eru í raun svo sjálfsögð að það er
ótrúlegt að það þurfi að berjast fyrir þeim. Sett hefur verið á fót miðstöð; NPA miðstöðin, sem er
samvinnufélag í eigu fatlaðs fólks sem annað hvort stefnir að eða hefur notendastýrða persónulega aðstoð. Tilgangur félagsins er að styðja fatlað fólk við að útvega og skipuleggja persónulega aðstoð. Samtökin halda úti vefsíðu, www.npa.is, þar sem nálgast má ýmsan fróðleik.

Grunntónninn í erindi Freyju var, að það að lifa sjálfstæðu lífi eru sjálfsögð mannréttindi okkar
allra. NPA snýst um það að einstaklingur getur ráðið til sín aðstoð þar sem aðstoðin er sniðin að
þörfum einstaklingsins á hans eigin forsendum. Fyrir 5 árum upplifði Freyja sig sem ýsuflak á
færibandi þar sem aðrir stjórnuðu lífi hennar. Í dag nýtur hún NPA og er sjálfstæð kona á heimili
sínu. Áður fékk hún þjónustu þegar það hentaði öðrum, nú fær hún þjónustu sem hentar henni,
þegar það hentar henni.

Fyrir 5 árum snerist líf hennar meðal annars um það að geta valið á milli þess að vakna kl. 8:00 eða kl. 8:00. En hvað ef hana langaði að kúra aðeins lengur? Nei, ekki möguleiki því aðstoðarmanneskjan kom kl. 8:00 og þurfti að fara á annað heimili eftir klukkutíma. Með NPA getur Freyja ákveðið sjálf hvenær hún vill vakna og byrjað daginn. Áður upplifði hún sig sem byrði á öðrum og hún átti erfitt með að biðja um mikla aðstoð því hún vildi ekki „trufla“. Nú hins vegar fer ekki allur tími hennar í að bíða eftir öðrum. Hún borðar þegar hún er svöng, fer út þegar hana langar og sér um sínar daglegu athafnir sjálf eins og fullorðið fólk gerir almennt. Nú er hún dóttir foreldra sinna, systir bræðra sinna og vinkona vina sinna, ekki lengur „byrði“ á þessu fólki.

Eru þetta ekki sjálfsögð og eðlileg réttindi fyrir alla þá er það kjósa?

Hér er slóð á glærukynningu Freyju og hér að neðan er hljóðupptaka af fundinum.

1. hluti
2. hluti
3. hluti
4. hluti

BB