SJÚKLINGUR Á LYFINU GILENYA HEFUR GREINST MEÐ PML

Sjúklingur á lyfinu Gilenya hefur greinst með PML

PML-heilabólga hefur greinst í erlendum MS-sjúklingi sem hefur fengið meðferð með töflulyfinu Gilenya. Sjúklingurinn hafði þó áður verið á lyfinu Tysabri í þrjú og hálft ár.
Eftir Louise Wendt Jensen, rannsóknamiðlara hjá danska MS-félaginu.

Erlendur MS-sjúklingur, sem hefur fengið ávísað nýjasta MS-lyfinu Gilenya, hefur nú greinst með PML-heilabólgu eftir um fjögurra vikna meðferð með lyfinu. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi alvarlega heilabólga, sem hingað til hefur aðeins verið tengd við lyfið Tysabri, hefur verið staðfest hjá sjúklingi á Gilenya.

Jákvæður fyrir JC-veirunni
Sjúklingurinn sem um ræðir var á meðferð með Tysabri áður en hann var settur á töflulyfið Gilenya. Sjúklingurinn var einnig jákvæður fyrir JC-veirunni. JC-veira er veira sem um helmingur fólks hefur í líkamanum án þess að vita það og er veiran forsenda þess að PML-heilabólga getur þróast í einstaka tilfellum hjá sjúklingum á Tysabri.

Of stutt hlé
Mælt er með varkárni í meðhöndlun sjúklinga, sem eru jákvæðir fyrir JC-veirunni, með Tysabri í meira en tvö ár, en ekki er langt síðan að mögulegt var að prófa fyrir JC-veirunni. Umræddur sjúklingur hafði verið á Tysabri í þrjú og hálft ár. Þar sem sjúklingurinn fékk slæmt kast á Tysabri var ákveðið að skipta yfir á töflumeðferð með Gilenya, en sjúklingurinn var einungis lyfjalaus í sex vikur þegar mælt er með að tólf vikur líði á milli. Sjúklingurinn fór heldur ekki í segulómskoðun áður en hann hóf töku Gilenya, sem annars er einnig mælt með.

Ekkert útilokað
Novartis, sem markaðssetur Gilenya hefur ekki gefið út opinbera fréttatilkynningu í tengslum við atvikið en hefur, samkvæmt írska dagblaðinu The Irish Times, sagt að “núverandi mat er að líklegast sé að Tysabri sé það efni sem tengist þessu tilfelli PML-heilabólgu. Hins vegar er ekki hægt að útiloka að Gilenya geti einnig hafa haft áhrif. ”
Ekki hefur áður verið tilkynnt um PML-heilabólgu hjá sjúklingum á Gilenya.

Mjög ólíklegt
Finn Sellebjerg yfirlæknir á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn, sem er formaður rannsóknarráðs danska MS-félagsins, telur það mjög ólíklegt að PML-heilabólgan sé komin til vegna meðferðar með Gilenya.
“Út frá fyrirliggjandi upplýsingum er það nánast víst að PML-heilabólguna megi rekja til Tysabri og ekki síðari meðferð með Gilenya. PML-heilabólga er sjúkdómur sem þróast yfir marga mánuði og því verðum við að trúa því að sjúkdómurinn sé vegna Tysabri-meðferðarinnar, “segir Finn Sellebjerg.

Í sérstakri athugun
Gilenya er nú í sérstakri athugun hjá evrópskum lyfjayfirvöldum, vegna þess að í nóvember á síðasta ári lést sjúklingur innan við 24 klukkustundum eftir að hann hafði fengið fyrstu meðferð með lyfinu. Gilenya getur valdið óeðlilega hægum hjartslætti í fyrsta skipti sem taflan er tekin og lyfjayfirvöld eru nú að skoða hvort það gæti verið það sem olli dauðsfallinu. Niðurstöður athugunarinnar eru væntanlegar í dag á vef danska MS-félagsins.

Tekið af vef danska MS-félagsins – Scleroseforeningen