SKAGFIRÐINGAR HEIMSÓTTIR

Ánægjuleg heimsókn í Skagafjörð. Þann 12. apríl fóru fulltrúar úr ferða- og lyfjahóp MS-félagsins, þær Berglind Guðmundsdóttir formaður og Bergþóra Bergsdóttir gjaldkeri, til Sauðárkróks og funduðu með MS-fólki og aðstandendum. Fundinn sóttu Skagfirðingar og Skagstrendingar. Fundurinn var haldinn á Kaffi Krók sem er glæsilegt nýuppgert kaffihús. Góð mæting var á fundinn, bæði MS-fólk og aðstandendur.

Berglind kynnti félagið. Hvatti hún fundarmenn til að skoða fræðsluefni félagsins, svo sem bæklinga, heimasíðuna, MeginStoð og barnabókina Benjamín. Að auki væri nú að finna á vef MS-félagsins hljóðupptökur og glærur frá tveimur mjög áhugaverðum fræðslufundum félagsins sem haldnir hafa verið frá áramótum. Þá stendur íbúðin á Sléttuveginum landsbyggðarfólki til boða. Ágætt er að panta með fyrirvara en eins má alltaf hringja og athuga hvort íbúðin er laus ef skreppa þarf í bæinn. Berglind sagði einnig frá helgarnámskeiðum sem henta vel landsbyggðarfólki en að auki sagði hún frá því að félagið styrkir spjallhópa á landsbyggðinni til að standa straum af kostnaði við t.d. veitingar á fundum.

Bergþóra sagði frá lyfjahópi MS-félagsins sem í eiga sæti þær Bergþóra og Berglind en einnig Sverrir Bergmann, læknir, og Sigurbjörg Ármannsdóttir, fyrrum formaður MS-félagsins. Bergþóra fór yfir lyfjamálin og sagði frá þeim lyfjum sem nú eru í boði. Hún sagði einnig frá lyfinu Gilenya sem er lyf í töfluformi og það því þannig fyrsta sinnar tegundar fyrir MS-fólk. Lyfið bíður nú markaðsheimildar í Evrópu og verði niðurstaðan jákvæð tekur við umsóknarferli hjá Lyfjastofnunni á Íslandi. Eftir það verður væntanlega ljóst hverjar klínískar leiðbeiningar við val á sjúklingum verða. Væntingar standa til að lyfið standi okkur til boða seinna á þessu ári. Eins upplýsti Bergþóra um lyf sem hafa verið í tilraunaferli en hefur verið hafnað í Evrópu þar sem aukaverkanir eru ekki taldar vega á móti ávinningi. Einnig var rætt um lyf, sem eru ekki MS lyf, en margir þurfa að taka við til dæmis þreytu, verkjum og blöðruvandamálum. Góðar og miklar umræður sköpuðust, til dæmis um mikilvægi hreyfingar og hollrar fæðu, inntöku vítamína, og þá sérstaklega D-3 vítamíns, og þess að vera virkur í samfélaginu.

Mynd frá fundi í SkagafirðiFundarmenn upplýstu okkur um þjónustu sem þeim stendur til boða, eins og sjúkraþjálfun og læknisþjónustu. Almenn ánægja ríkir með stöðu mála. Taugalæknir á Akureyri sinnir Skagafirði en það tekur rúman klukkutíma að keyra til Akureyrar. Sjúkraþjálfarar á staðnum ná að þjónusta hópinn vel og ágætis aðstaða er til líkamsræktar.

MS-félagið hefur lagt áherslu á að stofna spjallhópa á landsbyggðinni. Fyrir nokkrum árum var slíkur hópur í Skagafirði en hann lagðist af. Á fundinum var ákveðið að koma aftur af stað spjallhópi og var fyrsti fundur ákveðinn. Vonandi verður til spjallhópur sem hittist reglulega.

Fundarmenn gerðu góðan róm að framsögu okkar og lýstu yfir ánægju með heimsókn okkar. Við stöllur notuðum tækifærið og skoðuðum okkur um í Skagafirði og heimsóttum meðal annars höfuðbólið Hóla í Hjaltadal. Eins skoðuðum við fornleifarnar við Kolkuós, merkar minjar sem eru að hverfa í sjó. Við fengum sýnishorn af íslenskri veðráttu; rigningu, hagléljum og sól. Við þökkum fyrir góðan fund og góðar móttökur í Skagafirði.

Berglind Guðmundsdóttir
Bergþóra Bergsdóttir