Enn á ný hefur MS-félagið leitað til almennings eftir styrkjum til starfsemi félagsins. Í tilefni 45 ára afmælis félagsins í ár hannaði félagið bókamerki með fallegri mynd Eddu Heiðrúnar Bachman sem ætíð styður dyggilega við félagið. Myndin sýnir 4 smáfugla á grein og minnir okkur á að sumarið er komið.
Bókamerkið fá allir þeir sem styrkja félagið um 3.000 kr. eða meira. Hægt er að styrkja félagið um lægri fjárhæð og tekur félagið þakksamlega á móti öllum framlögum, smáum sem stórum.
Markmið MS-félagsins er að vinna að velferð þeirra sem haldnir eru MS-sjúkdómnum með því að veita þeim og aðstandendum þeirra stuðning og stuðla að öfugri félags- og fræðslustarfsemi.
Í tilefni afmælis félagsins hefur félagið ráðist í að gera fræðslumynd um MS-sjúkdóminn. Myndin mun verða sýnd í Sjónvarpinu í september n.k. og veita almenningi fræðslu um sjúkdóminn og stöðu MS-fólks í dag.
Félagið gerði einnig fræðslumyndir 1994 og 2003 og á árinu 2011 kom út stuttmyndin MS og daglegt líf. Sjá slóðir á /?PageID=119
Árið um kring býður MS-félagið upp á metnaðarfulla þjónustu fyrir félagsmenn sína svo sem:
- Ýmis námskeið, svo sem fyrir nýgreinda, börn, maka og foreldra MS-fólks, jafnvægis- og styrktarnámskeið, yoga, minnisnámskeið, námskeið í virkni og vellíðan, HAM – hugræn atferlismeðferð og kynjabundin kynlífsnámskeið
- Lyfjahóp sem leggur sig fram um að viða að sér nýjustu upplýsingum um lyfjamál og vera í forsvari gagnvart heilbrigðisyfirvöldum til að tryggja að MS-fólk njóti bestu mögulegrar meðferðar á hverjum tíma.
- Fræðslu- og kynningarfundi – upptökur af flestum fundum eru settar á heimasíðuna sem þjónusta við þá sem ekki eiga heimangengt og fyrir landsbyggðarfólk
- Landsbyggðarfundi til að færa fólk á landsbyggðinni nær félaginu – kynning á félaginu, lyfjamálum og hjálpartækjum
- Íbúð til útleigu til skemmri tíma að Sléttuvegi 9 sem er aðallega nýtt af landsbyggðarfólki og MS-fólki búsettu erlendis
- Viðtalstíma við formann félagsins – er sérstaklega vel tekið af nýgreindum og aðstandendum þeirra
- MS-Setrið – stendur MS-fólki til boða – rekið skv. þjónustusamningi við Velferðarráðuneyti
- Félagsráðgjafa – viðtalstímar á föstudögum frá kl. 10-13
- Útgáfu tímarits, MeginStoðar, tvisvar á ári, auk bóka og bæklinga
- Skrifstofu – opið daglega frá kl. 10-15
- Þátttöku í Alþjóðadegi MS-félaga
- Vefsíðu og fésbókarsíðu
- Erlent samstarf
- Nefndastarf
- Ýmislegt annað ótalið
Ykkar styrkur er okkar stoð
Það er alveg ljóst að félaginu væri það ekki mögulegt að halda úti sinni öflugu félags- og fræðslustarfsemi ef ekki kæmi til stuðningur almennings og góðgerðarsamtaka. Fjárframlög ríkis taka aðeins yfir brotabrot af starfseminni.
Það er gæfa félagsins að landsmenn hafa í gegnum tíðina stutt vel við félagið og vonum við því að landsmenn taki enn á ný vel á móti sölufólki okkar sem hringir út á kvöldin.
Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá Eddu Heiðrúnu Bachman og Ingdísi Líndal hjá MS-félaginu með bókamerkið.
Bergþóra Bergsdóttir