STANFORD FRESTAR FRÁFLÆÐIAÐGERÐUM

Vísindamenn við Stanford háskóla í Bandaríkjunum hafa slegið á frest aðgerðum á MS sjúklingum, sem hafa verið greindir með CCSVI, slakt fráflæði blóðs, sem ítalskur læknir og vísindamenn við Buffalo-háskóla hafa rannsakað um nokkurt skeið. Sverrir Bergmann, taugalæknir MS-félagsins og ýmsir fræðimenn hafa lýst efasemdum sínum um fráflæðikenninguna. Enn eiga rannsóknir nokkuð langt í land.

Frá þessu var greint í tímaritinu Annálar taugafræðinnar í liðnum mánuði. Ákvörðun Stanford-teymisins byggði á því að upp komu tvö tilvik alvarlegra aukaverkana í kjölfar víkkunaraðgerða á æðum í hálsi sjúklinga. Samkvæmt kenningunni um CCSVI stafaði MS af þrengslum í flæði blóðs frá heilanum. Annar sjúklingurinn lézt en hinn þurfti á hjartaaðgerð að halda.

Skiptar skoðanir eru um CCSVI-kenninguna, en Jeffrey Dunn, aðstoðarforstjóri MS rannsóknarseturs Stanford háskóla hvetur aðra taugalækna til að ræða opinskátt um hugsanlegar “hættur” samfara þessari aðgerð vegna lélegs fráflæðis, sem enn væri ekki fullreynd né hefði sannað gildi sitt.

“Ef ég get gert eitthvað til þess að vernda MS-sjúklinga frá skaðlegum afleiðingum vona byggðra á óskhyggju eða áhættu skaðlegrar og ósannaðrar meðferðar, þá hika ég ekki við að gera það,” sagði Dunn.

Höfundur kenningarinnar um slakt fráflæði frá heila, CCSVI, er ítalski skurðlæknirinn Paolo Zamboni og hefur hún vakið mikið umtal og ágreining. Einkum hefur hún þó vakið athygli og áhuga, sem hugsanleg orsök MS, á meðal þeirra tveggja og hálfrar milljónar einstaklinga í heiminum, sem eru með sjúkdóminn.

Talsmaður MS samtaka Bandaríkjanna (NMSS) segir um leitina að óþekktri læknisfræðilegri ástæðu fyrir MS-sjúkdómnum, að mikilvægt sé að hugsa og leita að frumlegum leiðum, út fyrir kassann, eins og sagt er á ensku. Þetta hafi Zamboni gert, en á hinn bóginn verði að leita óyggjandi sönnunar um að aðferð hans og kenning sé rétt.

Hann bætti við, að allar niðurstöður hingað til væru bráðabirgðaniðurstöður og enn lægju ekki fyrir nægar staðreyndir, sem væru til sannindamerkis um að æðaþrengsli ættu þátt í því að valda MS. Frekari rannsókna þyrfti við.

Við sama tón kveður hjá samtökum MS-samtaka víða um heim. Frekari rannsóknir væru nauðsynlegar og fjölmiðlar víða um heim hefðu gengið of langt í fréttum um fráflæðikenninguna og fréttaflutningur hefði verið fullsnemmær og “óraunsær”.

hh