Styrktarþjálfun hjá Styrk – myndband

Rannsóknir hafa sýnt að reglulegar og hófstilltar æfingar séu okkur, fólki með MS, mikilvægar til að viðhalda góðri heilsu og vellíðan. Við vitum þetta flest. En það er hins vegar eitt að ætla sér og langa til en annað að framkvæma og fylgja eftir fögrum fyrirheitum.

Mikinn sjálfsaga þarf til að setja upp og framfylgja æfingaprógrammi heima hjá sér og því leita margir til sérfræðinga, t.d. sjúkraþjálfara eða á líkamsræktarstöðvar.

 

MS-greindum á höfuðborgarsvæðinu býðst einstaklingsmiðuð sértæk líkamleg þjálfun í hópi undir leiðsögn sjúkraþjálfara sem hafa yfigripsmikla þekkingu og reynslu í þjálfun fólks með MS. Lögð er áhersla á að efla styrk, jafnvægi, færni og úthald. Öllum er frjálst að koma og taka prufutíma eða fylgjast með. Mjög góð aðstaða er til bæði hópþjálfunar og æfinga í tækjasal.

 

Hjá Styrk sjúkraþjálfun, Höfðabakka 9, Reykjavík er boðið upp á tvo námskeiðshópa;

  • hóp I á mánudögum kl. 13:30 og á miðvikudögum og föstudögum  kl. 13 og
  • hóp II á mánudögum og fimmtudögum kl. 14:30 

Þjálfunin stendur í klukkustund. Hópunum er skipt upp eftir getu. Almennt má segja að hópur I sé fyrir þá einstaklinga sem ekki notast við gönguhjálpartæki og hópur II sé fyrir þá einstaklinga sem notast við gönguhjálpartæki.

Þjálfarar eru Belinda Davíðsdóttir CheneryMaría Carrasco og Sigurður Sölvi Svavarsson.

Sjá nánari upplýsingar hér og myndir hér og hér.

Hér má sjá myndband frá því þegar hópur I og hópur II mættust í Brennó fyrir jól. Ekkert var gefið eftir og alltaf jafn gaman. Á eftir var boðið upp á kaffi og kökur til að bæta upp allar kaloríurnar sem töpuðust í boltanum 🙂

Skráning hjá Styrk í síma 587 7750.

 

Verð: 

Verð er mismunandi fyrir einstaklinga en fer eftir gjaldskrá SÍ um hópþjálfun, sjá hér.

Sjúkraþjálfun fellur undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands, sjá hér.

 

Hópatímarnir hjá Styrk örva ekki aðeins líkamlega færni, þeir gefa líka mikið af sér félagslega þar sem góð samheldni myndast meðal þátttakenda.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi 

 

Æfingar:

Æfingar fyrir líkamlega og hugræna færni, sjá hér