SVÆÐAMEÐFERÐ ER ÁRANGURSRÍK

Eins og sjá má í dagskrártilkynningum á vef MS-félagsins eru í boði ýmis þjálfunar- og endurhæfingarnámskeið á vegum félagsins, s.s. Yoga og jafnvægisnámskeiðin, hvort tveggja námskeið sem oft eru flokkuð sem “óhefðbundin meðferð.” Eitt meðferðarúrræði, sem ekki hefur farið hátt er svokölluð svæðameðferð, sem Ingdís Líndal, svæðanuddari býður upp á einu sinni í viku. Svæðanudd Ingdísar hefur notið mikilla vinsælda í þau 4 ár, sem hún hefur boðið upp á þessa þjónustu.

“Ég er búin að starfa við svæðanudd og heilun einu sinni í viku, á mánudögum, í fjögur ár í samstarfi við MS-félagið,” sagði Ingdís Líndal í samtali við MS-vefinn. Hún útskrifaðist sem svæðanuddari og sjúkraliði árið 2005. Á hverjum mánudegi koma til hennar í nudd 4-5 einstaklingar að meðaltali.

En hvað er svæðanudd? Ingdís Líndal lýsir nuddmeðferðinni og áhrifum hennar með eftirfarandi hætti:

“Svæðameðferð er mjög áhrifa- og árangursrík meðferð sem virkjar lækningamátt líkamans sjálfs. Líkaminn vinnur “viðgerðarstörf” sín bezt í djúpri slökun sem svæðameðferð veitir. Þegar við erum hraust erum við orkumikil, en orkulítil þegar við erum of þreytt, undir of miklu álagi eða veik. Svæðameðferð eflir orkufæðið og blóðstreymið. Súrefnisupptakan í líkamanum verður eðlilegri og andlegt og líkamlegt atgervi eykst. Þetta er meðferðarform sem vinnur heildrænt að jafnvægi.”

Við þetta er að bæta, að svæðameðferð beinist að svokölluðum orkustöðvum líkamans í fótum fólks og á svæðanuddið sér rætur m.a. í Egyptalandi hinu forna og öðrum fornum menningarsamfélögum á borð við Kína, Indland, Grikkland og á meðal Indíána. Svæðanudd “er ein elzta heildræna meðhöndlunin á Vesturlöndum”, að því er Sonja Arnarsdóttir, svæða- og viðbragðsfræðingur og formaður Svæðameðferðarfélags Íslands segir.

Í kynningarefni frá Svæðameðferðarfélaginu segir, að svæðameðferð byggist á þeirri kenningu, að í höndum og fótum séu viðbragðssvæði, sem tengist og samsvari líkamshluta og hverju líffæri líkamans.

Í grein eftir Sonju þar sem fjallað er sérstaklega um svæðanudd segir hún m.a.:

“Hugmyndin á bak við svæðanudd er að allir líkamshlutar eigi sér samsvörun á fótum og höndum. Að til séu svæði eða viðbragðspunktar sem svara til hvers líffæris, innkirtils og allrar starfsemi líkamans í heild og að líkamlegt ástand endurspeglist í fótunum. Með því að nudda eða þrýsta á þessi svæði koma fram jákvæð áhrif á líffærakerfi og finnur fólk slökun og vellíðan eftir slíka meðferð sem kemur smám saman á alhliða jafnvægi í líkamanum..”

Þá kemur fram í greininni, að reynzt hafi vel með að vinna með orkurásir líkamans sem eru 14 og punkta á þeim, þetta hefur m.a reynzt vel fyrir fólk með vefjagigt, vöðvaverki, svefnleysi, mígreni, MS-sjúklinga og þá sem kljást við kvíða og depurð. Svæðameðferð eykur blóð- og orkuflæði líkamans og hentar fólki á öllum aldri og er mjög góð fyrir börn sem eru óróleg eða eiga við svefnörðugleika að stríða.

MS-vefurinn hefur rætt við MS-sjúklinga sem hafa farið í svæðanudd hjá Ingdísi Líndal og fær meðferðin mjög góða einkunn hjá þeim, sem hafa notið kunnáttu Ingdísar og mæla þeir sem reynt hafa einróma með svæðanuddi.

Við hvetjum fólk til að leita sér frekari upplýsinga um svæðanuddið hjá Ingdísi Líndal, svæðanuddara. Hægt er að panta tíma í s. 898-2970.

Frekari upplýsingar um svæðameðferð eru jafnframt á heimasíðu Svæðameðferðafélags Íslands. Smellið HÉR.

halldorjr@centrum.is