SVEINBJÖRN SIGURÐSSON HF. FÆRIR MS-FÉLAGINU GÖNGULYFTUBÚNAÐ AÐ GJÖF

Í tilefni 70 ára afmælis byggingafyrirtækisins Sveinbjörn Sigurðsson hf. ákváðu eigendur þess að færa líknarfélagi veglega gjöf fremur en að halda afmælisveislu og varð MS-félag Íslands fyrir valinu. Af miklum rausnarskap var félaginu gefinn göngulyftubúnaður til gönguþjálfunar fyrir MS-fólk. Bræðurnir Árni, Sigurður og Sveinbjörn, synir Sveinbjarnar Sigurðssonar stofanda fyrirtækisins, afhentu gjöfina 19. desember sl. við hátíðlega athöfn í sjúkraþjálfunarsal MS-Setursins.

Á þessu ári fagnar Sveinbjörn Sigurðsson hf. 70 ára starfsafmæli sem má telja einsdæmi í sögu byggingafyrirtækja á Íslandi og eru eigendur og starfsfólk fyrirtækisins afskaplega stolt af því. Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað í gegnum árin og verkefnin verið fjölbreytt; sundlaugar, brýr, einbýlishús, fjölbýlishús, leikskólar, menntastofnanir og atvinnu- og verslunarhúsnæði svo eitthvað sé nefnt. Sjá www.verktaki.is

Göngulyftubúnaðurinn sem MS-félagið fékk að gjöf er afar mikilvægt þjálfunartæki þeim sem bundnir eru hjólastól, eiga erfitt með gang og/eða stríða við jafnvægisleysi. Búnaðurinn samanstendur af braut sem fest er í loft og hreyfanlegu tæki með áföstu vesti sem fer utan um og styður vel við einstaklinginn sem í því er. Tækið er hæðarstillt fyrir hvern og einn, miðað við að einstaklingurinn geti hreyft fæturna eins og um göngu sé að ræða.

 

Búnaðurinn nýtist við æfingar á göngu og í tröppum og við göngu á rafknúðu göngubretti. Í göngulyftubúnaðinum getur einstaklingurinn gengið sjálfur og nær uppréttur án þess að eiga það á hættu að detta. Þjálfun sem þessi styrkir allt stoðkerfi líkamans en ekki síst vöðva í fótum og á mjaðmasvæði. Öll almenn líðan batnar þar sem blóðflæði eykst og spasmi og verkir minnka.

 

Göngulyftubúnaðurinn er ómetanlegur í þjálfun MS-fólks og þakkar MS-félagið Sveinbirni Sigurðsyni hf. fyrir höfðinglega gjöf og óskar fyrirtækinu heilla í framtíðinni.

 

 

BB