SVERRIR BERGMANN LÁTINN

Sverrir Bergmann Bergsson taugalæknir varð bráðkvaddur á heimili sínu fimmtudaginn 26. janúar síðastliðinn. Sverrir hefur undanfarna fjóra áratugi verið einn helsti taugasérfræðingur hér á landi og þar með einn helsti læknir MS-sjúklinga.

Sverrir Bergmann kom þegar í upphafi starfsferlis síns að málefnum MS-félags Íslands. Þá var félagið tiltölulega nýstofnað og varð Sverrir annar formaður í sögu þess, gegndi því embætti frá 1973 til 1978. Frá árinu 2004 og allt til síðasta dags var Sverrir sérlegur læknisfræðilegur ráðgjafi MS-félagsins. Hann var læknir Setursins, dagvistar MS-félagsins og tók auk þess á móti MS-sjúklingum í húsi félagsins að Sléttuvegi 5. Sverrir sinnti skjólstæðingum sínum vel, gaf þeim góðan tíma og lagði sig fram um að leysa málin af kostgæfni. Allir sem hittu Sverri fóru bjartsýnni og léttari í lund af hans fundi. Hann hélt einnig fjölmarga fyrirlestra á vegum félagsins um land allt, ávallt tilbúinn að gefa ráð og fræða.

Sverrir Bergmann Bergsson fæddist 20. janúar 1936 í Flatey á Skjálfanda. Hann varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands 1956, lauk kandídatsprófi frá Háskóla Íslands 1964, en tók síðan sérfræðipróf í heila- og taugasjúkdómum frá Institute of Neurology í Lundúnum 1971 og jafnhliða á The National Hospital for Nervous Diseases á Queen Square í Lundúnum. Fékk sérfræðileyfi sama ár. Sverrir hefur starfað við Ríkisspítala en þó að mestu starfað sjálfstætt auk þess að hafa stundað kennslu í fræðum sínum.

Sverrir var alla tíð mjög virkur í félagsstörfum lækna, meðal annars formaður Læknafélags Íslands um nokkurra ára skeið. Hann var einnig ávallt mjög virkur við ritstörf og skrifaði vel á annað hundrað greina í tímarit, blöð og fagtímarit, bæði innlend og erlend. Margar þeirra, auk viðtala við Sverri, má finna hér á vef MS-félagsins. Vert er að benda á síðustu tvö tölublöð Megin Stoðar í þessu sambandi. Í 2. tbl. 2011 er að finna ítarlegt viðtal við Sverri og John Benedikz, annan mikilvægan taugalækni í sögu MS-félagsins, þar sem þeir líta yfir feril síðustu 40 ára. Í 1. tbl. 2012 er svo að finna grein Sverris sjálfs um niðurstöður úr fjórðu faraldsfræðilegu rannsókn hans á MS-sjúkdóminum á Íslandi. Rannsóknina vann Sverrir á árunum 2007 til 2009 og er hún nú óumdeilt síðasta stórvirki hans á vísindasviðinu.

Sverrir Bergmann var kjörinn heiðursfélagi Læknafélags Reykjavíkur 2001 og heiðursfélagi MS-félags Íslands árið 2008. Á síðasta sumri sæmdi forseti Íslands hann fálkaorðunni fyrir störf í þágu MS-sjúklinga og á vettvangi heilbrigðismála og læknavísinda.