SVERRIR BERGMANN SÆMDUR FÁLKAORÐUNNI

Forseti Íslands sæmdi Sverri Bergmann, taugalækni og sérlegan sérfræðing MS-félagsins Fálkaorðunni þ. 16. júní s.l. fyrir störf í þágu MS-sjúklinga og á vettvangi heilbrigðismála og læknavísinda. Sverrir hefur verið vakinn og sofinn yfir velferð skjólstæðinga MS-félagsins um margra ára skeið.

Auk sérstakrar þjónustu við MS-sjúklinga fyrir MS-félagið hefur Sverrir tekið á móti sjúklingum í MS-húsinu, veitt stjórn félagsins holla ráðgjöf um sérfræðileg efni, einkum lyfjamál, auk þess, sem hann hefur hann ávallt verið til reiðu, þegar MS-vefurinn hefur leitað til hans um sérfræðileg efni. Þá hefur hann skrifað margar greinar um MS-sjúkdóminn í MeginStoð, málgagn félagsins, og ráðið svokölluðum lyfjahópi félagsins heilt.

Árið 1971 gerði Sverrir Bergmann fyrstu MS-faraldursfræðirannsókn sína. Frá byrjun ársins 2008 hefur Sverrir Bergmann, taugafræðingur, unnið að fjórðu MS-faraldsfræðirannsókn sinni. Þá hefur Sverrir verið sérstakur ábyrgðarmaður samnorrænnar könnunar, viðamikillar samnorrænnar könnunar, sem ætlað var að kortleggja hvaða meðferðir MS-fólk nýtir sér og hvernig þær hafa reynst því.

Árið 2009 sagði svo í frétt á MS-vefnum: “Sverrir Bergmann, taugasérfræðingur, hefur lengi unnið að íslenzkum hluta evrópskrar rannsóknar um heilbrigðis- og félagslega þjónustu og ummönnun fólks með MS. Alls hefur Sverrir hingað til náð því að ræða við um 300 MS-sjúklinga eða sem nemur um 80% allra lifandi Íslendinga, sem hafa verið greindir með MS. Viðfang rannsóknarinnar eru MS greindir einstaklingar, sem eru á lífi, enda byggist rannsóknaraðferð Sverris m.a. á viðtölum við lifandi fólk en ekki á rannsókn skráðra gagna um MS sjúklinga, sem eru látnir. Víst má telja, að Sverrir einn hefur nú þegar slegið við öðrum, sem taka þátt í rannsókninni og vinna Sverris verði grundvöllur fullnægjandi meðferðar í löndum, þar sem svo er ekki.”

Sverrir Bergmann hefur verið ötull baráttumaður MS-sjúklinga á opinberum vettvangi og lagt ríka áherzlu á að MS-sjúklingar fái ávallt aðgang að beztu lyfjum og meðferð.

Sverrir Bergmann, taugalæknir og fv. dósent við Háskóla Íslands fæddist þ. 20. janúar 1936 í Flatey á Skjálfanda. Hann er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands 1956, lauk kandídatsprófi frá Háskóla Íslands 1964, en tók síðan sérfræðipróf í heila- og taugasjúkdómum frá Institute of Neurology í Lundúnum 1971 og jafnhliða á The National Hospital for Nervous Diseases á Queen Square í Lundúnum. Fékk sérfræðileyfi sama ár. Sverrir hefur starfað við Ríkisspítala en þó að mestu starfað sjálfstætt auk þess að hafa stundað kennslu í fræðum sínum.

Hann hefur verið mjög virkur í félagsstörfum lækna, var m.a. formaður Læknafélags Íslands um nokkurra ára skeið og einnig formaður MS-félagsins um skeið. Þá hefur Sverrir verið mjög virkur við ritstörf og hefur hann skrifað vel á annað hundrað greina í tímarit, blöð og fagtímarit, bæði innlend og erlend.

Sverrir Bergmann var kjörinn heiðursfélagi Læknafélags Reykjavíkur 2001 og heiðursfélagi MS-félags Íslands árið 2008.

e. Halldór Halldórsson

Ljósmynd af Sverri Bergmann tók Gunnar Vigfússon.