Þvagfærasýking – einkenni og ráð

Þvagfærasýking er nokkuð algeng meðal einstaklinga með MS. Ástæður þess eru m.a. erfiðleikar við að tæma þvagblöðru, notkun þvagleggja, erfiðleikar við að viðhalda góðu hreinlæti við grindarbotn, minni hreyfigeta og blöðrulömun. Þvagfærasýkingu, eins og aðrar sýkingar, þarf alltaf að taka alvarlega og leita skal strax til læknis/ heilsugæslu til að fá meðhöndlun því annars er hætta á því að sýkingin fari í nýrun.

Mikilvægt er að vera á verði gagnvart einkennum þvagfærasýkingar því hún getur aukið á MS-einkenni og líkst MS-kasti.

 

Hvað er þvagfærasýking?

Þvagfærasýking er það þegar bakteríur komast upp þvagrásina, í blöðru eða jafnvel til nýrna. Þar fjölga þær sér og valda einkennum sýkingar. Yfirleitt er um að ræða bakteríur frá endaþarmi þess sem sýkist. Sýkingin getur verið bundin við þvagblöðru eða blöðruhálskirtil (hjá körlum) eða náð til nýrna.

Það getur verið að bakteríur séu í þvaginu án þess að einstaklingur hafi einkenni um sýkingu.

 

Einkenni

Staðbundin einkenni þvagfærasýkingar geta verið eitt eða fleiri:

 • Tíð þvaglát
 • Næturþvaglát
 • Lítið þvag í einu
 • Mikil þvaglátsþörf
 • Sviði við þvaglát
 • Þvagið er dökkt og/eða gruggugt
 • Illa lyktandi þvag
 • Blóð í þvagi
 • Verkur yfir blöðrustað
 • Kvið- og bakverkir
 • Þvagleki/þvagteppa

 

Almenn einkenni geta verið eitt eða fleiri:

 • Hár líkamshiti (getur líka verið án hita)
 • Hrollur
 • Slappleiki
 • Ógleði/uppköst
 • Niðurgangur
 • Breyting á meðvitundarástandi

 

Fyrirbyggjandi ráð

 • Drekka vel, helst um tvo lítra af vökva á dag (vatnið er best og jafnvel trönuberjasafi)
 • Taka trönuberjatöflur daglega (fást í heilsuhillum verslana eða í apótekum)
 • Gæta þess að tæma þvagblöðruna vel og reglulega
 • Viðhalda góðu hreinlæti
 • Konur ættu að þurrka sig að neðan þannig að þær byrji að framan og endi að aftan og karlmenn ættu að taka forhúðina frá áður en þeir hafa þvaglát
 • Hafa þvaglát eftir kynlíf
 • Forðast krem og sprey á kynfærasvæðið
 • Fara í sturtu frekar en í bað
 • Forðast freyði- og olíubað
 • Vera í nærbuxum (helst úr bómull) sem þrengja ekki að þvag- og kynfærum

 

Sýking eða ekki?

Í apóteki er hægt að kaupa þvagprufuglös og sérstaka strimla (3 strimlar í pakka) til að setja í þvag, til að kanna hvort um sýkingu er að ræða eða ekki. Það er líka hægt að fara með þvagprufu á heilsugæslustöð til að athuga með sýkingu.

Áður en pissað er í þvagprufuglas er mikilvægt að þvo sér vel um hendur og að neðan til að koma í veg fyrir að sýnið mengist. Best er að fá svokallað miðbunuþvag, en þá fer fyrsta bunan í salernið, síðan í sýnaílátið og blaðran svo tæmd í salernið.

Ef strimlaprófið er jákvætt eða grunur er um sýkingu skal hafa samband við heimilislækni/hjúkrunarfræðing á heilsugæslu sem gæti óskað eftir þvagprufu til að senda í ræktun til að finna út hvaða bakteríur valda sýkingunni, en slík ræktun tekur þrjá virka daga.

Ef einkenni eru mjög skýr, strimlapróf er jákvætt eða einstaklingur hefur fengið þvagfærasýkingar áður getur læknir ákveðið að setja viðkomandi samdægurs á sýklalyfjameðferð.

Við endurteknar sýkingar og þegar einstaklingur hefur lært að meta einkenni sín er stundum gefinn út fjölnota lyfseðill eða einstaklingur látinn taka smáskammta sýklalyf daglega sem fyrirbyggjandi meðferð.

 

 

Heimild hér

Mynd: i.huffpost.com

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Frekari fróðleikur: