TYSABRI VIRKAR EKKI VIÐ SÍVERSNUN MS

Lyfjafyrirtækið Biogen, sem er framleiðandi MS-lyfsins Tysabri, birti nýlega niðurstöður fasa-3 rannsóknar (ASCEND) á virkni Tysabri á síðkomna versnun í MS (secondary progressive MS). Því miður stóðu niðurstöður ekki undir væntingum og er Tysabri ekki talið gagnast þessum sjúklingahópi.

Lyfið gagnast þó vel sjúklingum með kastaform sjúkdómsins. Um 85% fólks með MS eru á einhverjum tímapunkti með sjúkdóminn í köstum en um helmingur þeirra þróa síðar með sér síðkomna versnun sem engin sérstök MS-lyf eru til við enn. Margskonar lyf eru til við kastaformi MS sem hægja á eða stöðva framgang sjúkdómsins. Því er mikilvægt að sjúklingar með MS fái meðhöndlun sem fyrst eftir greiningu svo halda megi sjúkdómnum í skefjum þannig að líkur á síðkominni versnun minnki.

ASCEND-rannsókninni var ætlað að leggja mat á verkun og öryggi Tysabri við að hægja á versnun sjúkdómsins óháð MS-köstum hjá sjúklingum með síðkomna versnun.

Í rannsóknarhópnum voru tæplega 900 sjúklingar frá 15 löndum með síðkomna versnun MS. Þátttakendur höfðu ekki haft köst í tvö ár áður en þeir tóku þátt í rannsókninni og lá fötlunarstig meirihluta þeirra á bilinu 6,0 til 6,5 á EDSS-skalanum (ganga ekki án aðstoðar). Eftir meðferð með annað hvort lyfleysu eða 300 mg natalízúmab (Tysabri) var sjúklingum fylgt eftir í 24 mánuði.

Mæld var þróun fötlunar á efri útlimi, neðri útlimi og þróun heilaskemmda.

Niðurstaðan var sú að þrátt fyrir að Tysabri sýndi tölfræðilega marktæk jákvæð áhrif á efri útlimi þá reyndist Tysabri ekki hafa marktæk áhrif á þróun fötlunar á neðri útlimi eða á þróun heilaskemmda.

Einhverjir sjúklingar fengu þó ávinning af meðferðinni, þ.m.t. fækkun kasta og færri ný MRI-sár.

 

Sjá yfirlýsingu Biogen hér

Sjá umfjöllun danska MS-félagsins hér

 

 

 

Bergþóra Bergsdóttir