UPPSKERUHÁTÍÐ REYKJAVÍKURMARAÞONS

Uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons 2014 fór fram í gær. Aðalstyrktaraðili hlaupsins, Íslandsbanki, bauð til hátíðarinnar í höfuðstöðvum sínum á Kirkjusandi. Fyrir hönd MS-félagsins mættu Ólína Ólafsdóttir (t.h. á myndinni) og Berglind Björgúlfsdóttir (t.v.) og tóku þær formlega á móti 1.278.833 kr. Án þess að metast við önnur góð og gegn velferðarmál þá fékk MS-félagið 18. hæsta styrkinn af 167 góðgerðarfélögum 🙂 TAKK TAKK TAKK, HLAUPARAR OG STUÐNINGSAÐILAR !!


Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur sem sér um framkvæmd Reykjavíkurmaraþons, stjórnaði stuttri dagskrá uppskeruhátíðarinnar. Til máls tóku einnig Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka, Snæbjörn Ragnarsson, einn af Maraþonmönnunum úr Skálmöld, og Rósa Guðbjartsdóttir, formaður Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, sem er eitt af góðgerðafélögunum sem tóku þátt í áheitasöfnuninni.

Í lok uppskeruhátíðarinnar fengu fulltrúar góðgerðafélaganna upplýsingar um þær fjárhæðir sem til þeirra söfnuðust. Áheitin verða greidd inn á reikninga góðgerðafélaganna þegar safnað fé hefur skilað sér frá síma- og kortafyrirtækjum, væntanlega í byrjun nóvember. Smellið hér til að skoða lista yfir öll góðgerðafélögin sem upphæðir söfnuðust til og hér til að skoða helstu tölfræði söfnunarinnar á hlaupastyrkur.is.

 

 

BB (Tekið af marathon.is)