Útvarpsviðtal við Elías Ólafsson, yfirlækni á taugalækningadeild LSH

Elías Ólafsson, yfirlæknir á taugalækningadeild LSH, var í viðtali í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær þar sem hann var spurður um aðgengi MS-greindra að taugalæknum.

Tilefnið var innsent bréf til þáttarins frá einstaklingi með MS sem vildi vekja athygli á því hve erfiðlega honum hefði gengið að ná sambandi við taugalækni sinn og kenndi meðal annars um skorti á taugalæknum.

Elías tók undir að alltof fáir taugalæknar væru starfandi hér á landi en þeim hafi fækkað á undanförnum árum, m.a. vegna hækkandi aldurs. Engin leið væri að sinna öllu því sem fólk þyrfti og óskaði eftir en með því að skammta fólki tíma taugalæknanna gengi það þó ágætlega. Hann sagði einnig aðstöðu og aðbúnað á göngudeild taugalækninga ekki fullnægjandi en það stæði þó vonandi til bóta með nýjum spítala.

Elías sagði að lyfjum við MS hefði fjölgað á undanförnum árum, meðferðin væri orðin vandasamari og sjúklingar þyrftu meiri tíma en áður. Það þyrfti því að skammta þann tíma sem hver og einn gæti fengið hjá taugalækni og fengju þeir sem væru með erfiðasta sjúkdóminn meiri tíma en aðrir.

Margir læknar eru nú í sérnámi erlendis. Tveir nýútskrifaðir taugalæknar hófu störf á LSH á síðasta ári og von er á einum í sumar. Það er því bjartara framundan.

Á LSH eru núna 10 taugalæknar í 8 stöðugildum, 4-5 eru starfandi utan spítalans, þar af er einn í hlutastarfi á Akureyri. Að auki eru læknar sem framkvæma taugarannsóknir (heilarit og taugarit). (Taugalækningadeild sinnir einnig einstaklingum með aðra taugasjúkdóma, eins og Parkinson og MND).

Elías sagði það algengt að fólk kæmi árlega eða annað hvert ár í eftirlit. Taugalækningadeildin treystir á heilsugæsluna til aðstoðar. Staðan hér er þó ekki alslæm sé miðað við önnur lönd. Í Bretlandi eru til dæmis mun fleiri einstaklingar á hvern taugalækni en hér. Vilji sé þó til að gera mun betur.

Elías sagði að lokum að miklar breytingar hefðu átt sér stað í meðhöndlun MS á þeim 30 árum sem hann hefði starfað sem taugalæknir. Fyrir 30 árum síðan hefðu engin lyf verið til við sjúkdómnum en nú væru til fjölmörg lyf sem greininlega hefðu áhrif á gang sjúkdómsins.

 

Hlusta má á viðtalið hér.

 

Bergþóra Bergsdóttir