VEL HEPPNAÐ NÁMSKEIÐ FYRIR BÖRN MS-FÓLKS!

Eftir ábendingum félagsmanna um þörf á fræðslu og stuðningi við börn MS fólks var ákveðið að leita til Systkinasmiðjunnar um samstarf við að koma á laggirnar námskeiði fyrir börn MS-fólks.

Þær Hanna Björnsdóttir, MA í barnasálfræði og Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Systkinasmiðjunni tóku vel í hugmyndir okkar og það varð úr að bjóða upp á helgarnámskeið með eftirfylgni einn eftirmiðdag, í anda starfsins hjá Systkinasmiðjunni.

Svölurnar, félag núverandi og fyrrverandi flugfreyja, voru svo rausnarlegar að kosta námskeiðið og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Helgina 2.-3. maí mættu síðan 15 börn á aldrinum 8 til 16 ára á námskeiðið. Nokkuð fleiri stelpur en strákar voru á námskeiðinu og í flestum tilvikum var um það að ræða að móðir barnsins er með MS-sjúkdóminn.

Námskeiðið fór einkar vel fram og stóðu börnin sig mjög vel. Að sögn Vilborgar og Hönnu er greinilegt að mikil þörf er á námskeiði sem þessu fyrir börnin. Ýmsar spurningar brunnu á börnunum, svo sem „deyr maður úr MS?“, „er MS smitandi?“ og „erfist MS?“. Áhugasömum er bent á grein í greinasafni sem Þuríður Ragna Sigurðardóttir þýddi og staðfærði „Ef mamma eða pabbi eru með MS“.

Það er ljóst að þörf er á frekara fræðsluefni á íslensku fyrir börn um sjúkdóminn og afleiðingar hans. Við höfum þegar fengið vilyrði fyrir því að gefa út á íslensku bók sem einhverjir kannast ef til vill við, það er bókina um Benjamín. Bókin er væntanleg í íslenskri útgáfu síðar á þessu ári, en ensk útgáfa hennar er aðgengileg á vef kanadíska MS-félagins – smellið hér.

Við vonumst til þess að geta boðið upp á þetta námskeið reglulega í framtíðinni, eða a.m.k. einu sinni á ári. Það, að námskeiðið er helgarnámskeið, býður upp á það að börn allstaðar af landinu eiga að geta nýtt sér það. Vonir standa einnig til þess að hægt verði að bjóða börnum utan af landi upp á ferðastyrk. Áhugasamir mega endilega setja sig í samband við skrifstofu félagsins svo hægt sé að meta þörfina á öðru námskeiði. Síminn er 568 8620 en einnig er hægt að senda tölvupóst á msfelag@msfelag.is.

Nánari námskeiðslýsing – smellið hér. 

Myndin með fréttinni tengist ekki efni hennar.

Systkinasmiðjan lógó
Systkinasmiðjan
Meginmarkmið Systkinasmiðjunnar er að hjálpa börnum að tjá sig um reynslu og upplifun sína af því að eiga systkini með sérþarfir, en einnig hafa verið haldin námskeið fyrir börn og unglinga sem eiga veika eða fatlaða foreldra, ásamt fræðslunámskeiðum fyrir ýmsar fagstéttir sem koma að þjónustu við fjölskyldur fatlaðra barna. Þeim sem vilja kynna sér starfsemi Systkinasmiðjunnar betur er bent á heimasíðu þeirra http://www.verumsaman.is/.

Svölurnar lógó
Svölurnar
Svölurnar, félag núverandi og fyrrverandi flugfreyja hefur það markmið að styðja fjárhagslega við bakið á þeim sem minna mega sín. Svölurnar hafa um langt árabil stutt MS-félag Íslands með tækjakaupum og margvíslegum öðrum hætti, en allur ágóði af sölu jólakorta Svalanna rennur til líknarmála. Þeim sem vilja kynna sér starfsemi Svalanna betur er bent á heimasíðu þeirra http://www.svolurnar.is/.