VIÐ VERÐUM AÐ LIFA MEÐ SJÚKDÓMNUM EN EKKI VINNA GEGN HONUM

Þriðjudaginn 1. apríl n.k. heimsækir Daninn Henrik Wessmann okkur í MS-húsið á Sléttuveginum og heldur fyrirlestur um bók sína Passion – Vi skal leve med sklerosen og ikke imod sklerosen, sem útleggst – Við verðum að lifa með sjúkdómnum en ekki vinna gegn honum. Bókin segir frá viðhorfum 18 einstaklinga með MS um hvernig þeir nálguðust ástríður sínar á annan og nýjan hátt eftir MS-greiningu. Fyrirlesturinn hefst kl. 14 og verður þýddur jafnhraðan á íslensku. ALLIR ÁHUGASAMIR ERU VELKOMNIR.

 

Henrik Wessmann fékk MS-greiningu 2009, þá rétt rúmlega fertugur að aldri. Hann þekkir því af eigin raun hvaða tilfinningar og óvissa um framtíðina bærast í hjarta þess sem fær greiningu um langvinnan sjúkdóm.

Henrik er staðráðinn í því að lifa með sjúkdómnum á jákvæðan og kraftmikinn hátt og vill gjarnan gefa af sér til annarra. Hann fékk þá snilldar hugmynd að gera bók

um MS,

af MS-fólki,

fyrir MS-fólk.

 

Hann fékk 18 MS-konur og -menn til að skrifa um hvernig það er að takast á við nýtt líf á jákvæðan hátt samhliða langvinnum og óútreiknanlegum sjúkdómi sem MS er. Í bókinni er því að finna 18 mismunandi sögur, skrifaðar á einlægan hátt, um hvað hefur gefið þessu fólki kraft til að lifa góðu og innihaldsríku lífi með MS.

Henrik Wessmann tók sjálfur myndirnar í bókinni enda mikill áhugamaður um ljósmyndun.

 

Bókin er gefin út með stuðningi lyfjafyrirtækisins Biogen Idec. Hægt er að skoða bókina hér eða fá hana senda með því að skrifa tölvupóst á ms@biogenidec.com. Bókin er á dönsku.

 

Vefslóð á bókina má finna á MS-vefnum hér.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir