MS er einn algengasti taugasjúkdómur sem leggst á ungt fólk. Á hverju ári greinast að jafnaði um 25 manns með MS á Íslandi, flestir á aldrinum 20-40 ára. Margir hafa upplifað MS-einkenni mörgum árum fyrir greiningu án þess að hafa gert sér grein fyrir því fyrr en litið er til baka.
Áætlað er að í ársbyrjun 2019 séu um 720 manns haldnir MS-sjúkdómnum á Íslandi.
MS er um tvisvar til þrisvar sinnum algengari hjá konum en körlum en um orsök þess er ekki vitað.
Við greiningu á MS er stuðst við:
- Skoðun taugalæknis.
- Sjúkrasögu og einkenni.
- Niðurstöður segulómunar (MR/MRI).
- Mænuvökvarannsókn sem gefur til kynna hvort um bólgu í miðtaugakerfinu sé að ræða.
- Sjónhrifrit sem sýnir leiðnihraða taugaboða í sjóntaugum og leiðir í ljós hvort um töf á taugaboðum sé að ræða, eins og getur gerst í kjölfar sjóntaugabólgu.
- Útilokun annarra sjúkdóma sem líkst geta MS svo sem vissra gigtarsjúkdóma, brenglaðrar starfsemi skjaldkirtils, heilaæxla, vissra sýkinga o.fl.
Til að uppfylla skilyrði MS-greiningar þarf einkenni um taugaskemmd að koma frá a.m.k. tveimur stöðum í miðtaugakerfinu og að einkennin hafi komið fram á mismunandi tíma. Greining getur þó byggt á einu MS-kasti séu viss skilyrði uppfyllt á segulómun. Greining á MS getur þó aldrei byggt eingöngu á niðurstöðu segulómunar.
Mynd tekin af Michigan Neurology Associates