SKILABOÐ TIL HLAUPARA SEM HLAUPA TIL STYRKTAR MS-FÉLAGI ÍSLANDS!

Kæri hlaupari,

Takk fyrir að hlaupa fyrir MS-félag Íslands. Við metum stuðning þinn mikils og er áheitasöfnunin mikilvægur þáttur í tekjuöflun félagsins.

Við hvetjum ykkur til að minna vini og ættingja á áheitasöfnunina, einnig á samfélagsmiðlunum. Sterkur leikur er að setja mynd inn á hlaupastyrk.is og stutta sögu um tengslin við MS-félagið. Við póstum reglulega hvatningu á okkar fésbókarsíðu og saman náum við góðum árangri!

Í ár er fyrirhugað að nota áheitin til að standa straum af kostnaði við kynningarefni sem fræðir fólk um ósýnileg einkenni MS-sjúkdómsins ásamt því að renna styrkari stoðum undir hina ýmsu þjónustu sem félagið veitir félagsmönnum sínum, s.s. sálfræðiþjónustu og styrkja ungt fólk með MS til náms. Í húsi félagsins er starfrækt MS Setrið sem er dagþjónusta og endurhæfingarmiðstöð fyrir fólk með MS-sjúkdóminn, aðra taugasjúkdóma, s.s. MND og Parkinson, og fólk í endurhæfingu eftir heilablóðfall eða aðra sjúkdóma og slys.  Frekari upplýsingar um starfsemi félagsins má finna á heimasíðunni www.msfelag.is og fésbókarsíðunni okkar MS-félag Íslands

MS-félagið verður með hvatningarstöð hjá Olís við Aflagranda. Þar munum við hvetja ykkur til dáða á okkar einstaka hátt og verðum auðþekkt af fjólubláa einkennislitnum okkar. Við hlökkum til að sjá ykkur.

Hægt er að nálgast borða hjá okkur með merki félagsins til að merkja sig á hlaupdegi. Einnig eigum við takmarkað magn af armböndum, derum, bolum og húfum sem hlauparar geta nálgast endurgjaldslaust á skrifstofu félagsins virka daga milli kl. 10 og 15 meðan birgðir endast.

HLAUPTU – það borgar sig fyrir MS-félag Íslands!

 

Með hlaupakveðju,

MS-félag Íslands

S. 568 8620