EINFALDAÐU HEIMILISSTÖRFIN MEÐ AÐFERÐUM LEAN

  EINFALDAÐU HEIMILISSTÖRFIN MEÐ AÐFERÐUM LEAN
  Örnámskeið fyrir félagsmenn. Mánudaginn 4. nóvember kl. 16.30-18.30 að Sléttuvegi 5.

  SKRÁNING TIL FIMMTUDAGS 31. OKTÓBER 2019

  Þreyta er algengt einkenni MS-sjúkdómsins og ein helsta ástæða þess að MS-greindir hverfa snemma af vinnumarkaðnum. MS-þreyta er ekki venjuleg þreyta sem eðlilegt er að fólk finni fyrir eftir áreynslu eða erfiðan dag heldur er um íþyngjandi þreytu að ræða. Þreytan hverfur yfirleitt ekki eftir stutta hvíld og er ekki auðveldlega hrist af sér. MS-félagið býður nú upp á örnámskeið fyrir félagsmenn með kærkominni leiðsögn um hvernig hægt er að einfalda hluta af verkefnum dagsins, það er heimilisstörfin.

  Lean er stjórnunaraðferð, einnig nefnd straumlínustjórnun eða stöðugar umbætur, sem hefur gagnast fyrirtækjum til að lágmarka sóun, stytta ferla og innleiða umbætur. Lean aðferðir virka ekki síður á heimilinu en á vinnustaðnum.

  Ertu þreytt/ur á að vera í stöðugri keppni við tímann á morgnana, þvottafjallið sem aldrei klárast og allan þennan tíma sem fer í eldamennsku og frágang?

  Þetta er hluti af þeim vandamálum sem flest heimili glíma við á hverjum degi en með aðferðum Lean er hægt að einfalda þessi verk sem skilar sér bæði í tímasparnaði, færri vandamálum og lægri rekstrarkostnaði heimilisins.

  Námskeiðið Einfaldaðu heimilisstörfin með aðferðum lean kennir fólki að sjá hvað flækir og gerir þessi verk tímafrek. Sýnd eru dæmi og kenndar aðferðir hvernig má breyta heimilinu þannig að heimilishaldið gangi betur fyrir sig. Einnig eru kenndar aðferðir með það að markmiði að heimilisstörfin séu unnin í samvinnu allra á heimilinu líkt og samspil hjá vel þjálfuðu íþróttaliði.

  Kennarar: Guðmundur Ingi Þorsteinsson frá Lean ráðgjöf og Margrét Edda Ragnarsdóttir frá Gemba ráðgjöf.

  Fyrir hverja: Alla félagsmenn sem hafa áhuga á að einfalda sér heimilislífið.

  Verð: Endurgjaldslaust fyrir félagsmenn.


  Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig á námskeiðið þar sem fjöldi plássa er takmarkaður. Ef eftirspurn verður næg munum við bjóða upp á annað námskeið eftir áramót.