Þjónusta

Þjónusta MS Setursins
Við leggjum áherslu á fjölbreytta virkni, þjálfun (almenna sjúkra-og iðjuþjálfun)og afþeyingu út frá mismunandi þörfum og áhuga. Við aðstoðum við athafnir daglegs lífs og veitum almenna hjúkrunarþjónustu og félagsráðgjöf. Við bjóðum upp á heitan mat í hádeginu í samstarfi við Matborðið. Við leggjum áherslu á að skapa rólegt og öruggt umhverfi með faglegri umhyggju.

Hjúkrunarþjónusta
Við veitum viðeigandi almenna þjónustu og hjúkrunarþjónustu eftir þörfum. Tekin er heilsufarssaga í upphafi og fylgst með breytingum. Við bjóðum upp á heilsufarsmælingar eins og mæling lífsmarka, þvagrannsóknir með strimlum og blóðsykursmælingar. Við aðstoðum við athafnir daglegs lífs, aðstoð við lyfjagjafir, sárameðferð, fræðslu og veitum andlegan stuðning. Við aðstoðum einnig við að umsóknir um félagslega þjónustu, hvíldarinnlagnir og annað tilfallandi. Við aðstoðum við skipulagningu og framkvæmd þjónustu í samráði við sérhvern skjólstæðing og aðstandendur.

Sjúkraþjálfun
Meginmarkmið sjúkraþjálfunar er að: Viðhalda færni í daglegu lífi með líkamsþjálfun og fræðslu. Þannig má auka kraft, úthald, jafnvægi og samhæfingu vöðva
Hópþjálfun er nýbreytni hér í Setrinu þar sem boðið er upp á jafnvægis-og styrktarþjálfun. Markmið með hópunum er að ná sem flestum í virka þjálfun en fjöldi þátttakenda er þó takmarkaður svo hægt er að aðlaga þarfir einstaklinganna innan starfsemi hópsins. Hóparnir eru tveir, annar fyrir gangandi einstaklinga og hinn fyrir einstaklinga með skert janfvægi sem þurfa orðið stuðning við göngu. Hver hópur hittist þrisvar í viku í um klukkutíma í senn.

 

Iðjuþjálfun
Markmið iðjuþjálfunar er að meta hæfnissvið, hæfniþætti og þær aðstæður sem hafa áhrif á færni og virkni einstaklingsins við daglega iðju. Boðið er upp á einstaklings- og hópaþjálfun. Metin er þörf fyrir hjálpartæki og séð um umsóknir til sjúkratrygginga og leiðbeint um notkun tækjanna.

 

Vinnustofa

Frá því að MS Setrið var stofnað hefur alltaf verið í gangi vinnustofa þar sem skjólstæðingar hittast og vinna að margvíslegum verkefnum.
Viðfangsefni vinnustofunnar eru mörg og mismunandi og má þar nefna til dæmis vinnu í gleri, leir, kertagerð, skartgripagerð svo ekki sé minnst á grjónapokana vinsælu
sem hafa verið ein helsta tekjulind okkar síðustu árin og eru alltaf til sölu.
Tilgangur vinnustofunar er margvíslegur, bæði félagslegur og þjálfunarlegur. Stöðugt er verið að finna verkefni við hæfi hvers og eins og geta margir komið að gerð sömu vöru þar sem færni eionstaklinga og áhugasvið er mismunandi.
Sem dæmi um fasta liði hjá okkur er daglegur lestur framhaldssögu, vax og handæfingar, raddæfingar /söngur, boccia, trivial, útivera og spil.

Í nóvember er haldið opið hús (jólabasar) hjá okkur þar sem til sölu eru vörur sem búið er að vinna að yfir árið auk þess sem gestum gefst kostur á að fá sér heitt súkkulaði og vöfflur. Ágóðin af basarnum er síðan notaður í efniskaup og skemmtanir, bæði innan og utan húss. Við höldum árshátíð á vorin og fáum til okkar skemmtikrafta í heimsókn nokkrum sinnum yfir árið. Einnig er reynt að fara á listasöfn og kaffihús um það bil einu sinni í mánuði.
Við höfum líka gert svolítið af því að fara hópferðir í bíó og hefur það verið sérlega vel sótt af skjólstæðingum.

Eldhús
Boðið er upp á morgunmat,heitan hádegismat í samstarfi við Matborðið og síðdegiskaffi.
Morgunmatur : 08.45-10.00
Hádegismatur: 12.00-12:30
Síðdegiskaffi: 14:30-